Við höfum engar áhyggjur af þessu

Almar Freyr Valdimarsson, til hægri, er klár í slaginn í …
Almar Freyr Valdimarsson, til hægri, er klár í slaginn í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við erum öll mjög róleg. Þeir eru búnir að spila svo vel að við höfum engar áhyggjur. Ég held við séum að fara að taka þetta,“ sagði Almar Freyr Valdimarsson, meðlimur í Sérsveitinni, stuðningsmannahópi íslensku landsliðanna í handbolta, í samtali við mbl.is.

„Það er búið að bætast mjög í dag. Við vorum bara með neðri hæðina á staðnum okkar fyrir fyrstu leikina en nú erum við með efri hæðina líka. Það er búist við 600-800 Íslendingum í dag,“ bætti Almar við.

Hann sagði ekki sömu stemningu í Króatíu í ár og var í Þýskalandi fyrir ári síðan.

„Þetta mót er búið að vera mjög fínt en maður sér minna þegar maður fer um borgina að það sé handboltamót í gangi. Það var meira áberandi í Þýskalandi að það væri handboltamót í gangi. Fólk er meira fyrir fótboltann hérna,“ útskýrði hann.

mbl.is/Eyþór Árnason

Almar hefur verið duglegur að sækja mót Íslands undanfarin ár og eru fyrirtæki tilbúin að styrkja Sérsveitina til að íslensku landsliðin fái sem bestan stuðning.

„Ég er búinn að fara á öll mót frá 2020, karla og kvenna. Þetta hefur verið yndislegt. Við fáum styrki. Við erum með félag sem er með kennitölu. Við söfnum styrkjum frá aðilum eins og Húsasmiðjunni og Íslensku klíníkinni. Þau styrkja okkur vel, ásamt fleiri fyrirtækjum sem taka þátt.

Svo hittum við fólk í svona ferðum sem er tilbúið til að hjálpa okkur. Við höfum oft fengið svoleiðis styrki og svo eru græjaðar rútur fyrir okkur á staði. Við erum mjög þakklát fyrir það,“ sagði Almar.

Með eiginkonunni

Almar er í Zagreb ásamt eiginkonu sinni Sonju Steinarsdóttur. Þau eru dugleg að ferðast á stórmót saman.

„Ég og konan mín erum hérna saman. Þetta er okkar áhugamál. Við erum ekki foreldrar heldur erum hérna saman til að hafa gaman með vinum. Það er alltaf gaman að skoða ný lönd.“

Almar hefur litlar áhyggjur af leik Íslands og Egyptalands í kvöld, þar sem íslenska liðið hefur spilað mjög vel á mótinu til þessa.

„Þeir eru búnir að spila rosalega vel og Viktor Gísli var svakalegur í markinu í síðasta leik. Vörnin var að hjálpa honum og við héldum út þrátt fyrir mikið af brottvísunum. Ég held við tökum þá. Þetta verður ekki stórsigur en þetta verður sigur.

Baráttuandinn er rosalegur og leikgleðin er klárlega meiri en hún var í fyrra. Ég yrði mjög sáttur við fimmta sæti. Við erum með Dani, Frakka og önnur sterk lið. Við getum ekki beðið um neitt mikið meira,“ sagði Almar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert