Sander Sagosen, stærsta stjarna norska landsliðsins í handbolta, fór meiddur af velli í 25:24-sigri Noregs á Spáni í milliriðli 3 á HM 2025 í Bærum í gærkvöldi.
Sagosen meiddist á kálfa og gæti þátttöku hans á heimsmeistaramótinu verið lokið af þeim sökum.
Thomas Torgalsen, læknir norska liðsins, sagði í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV 2 Sport eftir leikinn í gær að líklega hafi Sagosen tognað á kálfa.
Sé það raunin má leikstjórnandinn knái eiga von á því að vera frá keppni í nokkrar vikur, en HM lýkur eftir tíu daga.
Torgalsen ræddi við norska dagblaðið Verdens Gang í morgun og ítrekaði að Sagosen væri að öllum líkindum tognaður, sem myndi þýða þriggja vikna fjarveru.
Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að HM sé lokið hjá honum ætlar Noregur ekki að kalla inn nýjan leikmann í hans stað.