Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson hefur varið 44 skot af þeim 105 skotum sem hann hefur fengið á sig á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem nú stendur yfir í Króatíu, Danmörku og Noregi.
Hann er með 42 prósent markvörslu á mótinu og er í þriðja sæti yfir þá markmenn sem hafa staðið sig best á HM til þessa.
Frakkinn Samir Bellahcene er í efsta sætinu með 43 prósent markvörslu en hann hefur aðeins fengið á sig 23 skot til þessa.
Dominik Kuzmanovic, markvörður Króatíu, er í öðru sætinu, einnig með 43 prósent markvörslu en hann hefur varið 35 af 81 skoti á HM.
Ísland mætir einmitt Króatíu í annarri umferð milliriðils fjögur á morgun, föstudag, í Zagreb en með sigri tryggir Ísland sér efsta sæti riðilsins og sæti í 8-liða úrslitum mótsins.