Bjarki í sárum: Síðasti sólarhringur mjög erfiður

Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson mbl.is/Eyþór Árnason

„Tilfinningin er hræðileg,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við mbl.is í Zagreb í Króatíu í dag. Bjarki verður ekki meira með á HM vegna meiðsla en hann er staddur í króatísku höfuðborginni og mun fylgjast með leik Íslands og Króatíu úr stúkunni.

„Ég er búinn að vera tæpur í vöðvanum aftan í hnésbótinni og svo fer hann í gær. Síðasti sólarhringur er búinn að vera mjög erfiður. Þetta er víst partur af vinnunni minni.

Maður þarf að sætta sig við þetta þótt þetta sé sárt. Það mun taka sinn tíma að jafna sig á þessu, sérstaklega ef við horfum á gengið. Þetta verður erfitt en ég reyni að styðja strákana í stúkunni,“ sagði Bjarki, sem er með vinum og fjölskyldu.

Bjarki Már Elísson er að glíma við hnémeiðsli.
Bjarki Már Elísson er að glíma við hnémeiðsli. Eyþór Árnason

„Ég reyni að láta þá í friði og láta þá einbeita sér að leiknum. Ég er með konu, börn og pabba sem býr í Noregi sem er kominn til að sjá mig spila. Ég verð með þeim og fleiri góðum.“

Hornamaðurinn er brattur fyrir leikinn við Króatíu í kvöld en Ísland tryggir sér sæti í átta liða úrslitum með sigri.

„Væntingarnar eru háar. Við erum búnir að finna góðan takt og það þarf að halda honum. Ég finn andann í hópnum. Maður finnur eitthvað í loftinu stundum og ég finn það núna að það er eitthvað gott að gerast. Leikurinn í kvöld er mikilvægur en ég hef bullandi trú og held við vinnum þá í kvöld.

Það er alltaf erfitt að spila á móti heimaþjóð. Þú ert með áhorfendur á móti þér og jafnvel dómarana líka. Þá reynir á andlegan styrk og ég hef trú á að það verði í lagi. Ég spái 30:25. Þetta verður erfitt framan af en svo siglum við þessu í restina. Aron Pálmarsson er rétt að byrja og ég held hann verði hetjan í kvöld,“ sagði Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert