„Við erum auðvitað ánægðir með sigurinn,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari karlaliðs Króatíu í handbolta, á blaðamannafundi eftir sigur liðsins á Íslandi á HM í Zagreb í kvöld, 32:26.
„Við byrjuðum mjög vel og vörnin var frábær. Kuzmanovic var góður í marki allan leikinn. Við afgreiddum þennan leik vel og nú er annar úrslitaleikur á sunnudagskvöld. Nú förum við aftur á hótelið í endurheimt og hvíld og við gerum leikmenn tilbúna í næsta stórleik,“ sagði Dagur.
Dagur var spurður hvort leikurinn hafi verið sá besti undir hans stjórn sem þjálfari Króatíu.
„Við spiluðum vel í undankeppni Ólympíuleikanna. Þessi leikur var ekki síðri og ef eitthvað er enn betri. Það var tilfinningarík stund fyrir mig og alla í liðinu að heyra þennan magnaða stuðning og enn meira fyrir mig því þetta var á móti minni þjóð,“ sagði Dagur.