„Stemningin er rosalega góð,“ sagði Þorsteinn Þórólfsson, liðsmaður í stuðningsmannahópnum Sérsveitinni, í samtali við mbl.is fyrir leik Íslands og Króatíu í milliriðli HM í handbolta í kvöld.
„Ég er mikla og góða tilfinningu fyrir þessu. Það eru allir mjög klárir í þetta á meðan strákarnir eru pollrólegir,“ sagði hann.
Þorsteinn og fleiri liðsmenn Sérsveitarinnar eiga flug heim 28. janúar eftir milliriðlakeppnina en íslenska liðið á góða möguleika á að fara í átta liða úrslit og Þorsteinn vill ekki missa af því.
„Við eigum flug 28. og við stefnum enn þá á að fara heim þá en ef eitthvað stórkostlegt gerist tökum við fund og skoðum næstu skref.“
En hvernig er að heyra magnaða stuðningsmenn Íslands syngja þjóðsönginn fyrir leik?
„Það er gæsahúð frá toppi til táar,“ sagði Þorsteinn. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.