Heyrist mest í stuðningsmönnum Íslands

Sigvaldi ræðir við mbl.is.
Sigvaldi ræðir við mbl.is. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við höfum spilað þessa erfiðu leiki klókt og sérstaklega í sókninni. Við vorum ekki að þvinga neitt. Við vissum að ef við myndum skiptast á mörkum í lokin myndum við vinna,“ sagði landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við mbl.is um tvo síðustu leiki Íslands á HM í handbolta.

Ísland hefur unnið alla fjóra leiki sína á HM og sterk lið Egyptalands og Slóveníu í tveimur síðustu leikjunum fyrir framan fjölmarga stuðningsmenn íslenska liðsins.

„Maður heyrir mest í íslensku stuðningsmönnunum og það er alltaf þannig á stórmótum. Það er algjör snilld hvað margir mæta. Það er skemmtilegt að vita að fólk hafi gaman af því að fylgja okkur,“ sagði hann.

Það mun þó væntanlega heyrast meira í króatískum stuðningsmönnum í kvöld á þeirra eigin heimavelli.

„Við höfum mætt gestgjöfum áður og það er mjög gaman. Við finnum fyrir Íslendingunum þótt þeir verði í minnihluta. Við vitum að við erum á útivelli og það verður stútfull höll. Við munum sjá blátt í stúkunni og það gerir mikið fyrir okkur,“ sagði hornamaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert