Ísland á litla von á að ná sæti átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir tap fyrir Króatíu, 32:26, í 2. umferð milliriðils 4 í Zagreb í kvöld.
Ólíklegt er að sigur á Argentínu í lokaumferð riðilsins nægi til að fara áfram, þar sem munurinn var meiri en fjögur mörk.
Ísland þarf nú að treysta á að annað hvort Grænhöfðaeyjar eða Slóvenía taki stig af Egyptalandi eða Króatíu til þess að komast í átta liða úrslitin.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og var staðan 2:2 eftir fimm mínútur. Þá kom fínn kafli hjá Króatíu sem komst í 5:2.
Króatar héldu áfram að bæta í og var staðan 9:4 þegar 13 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik. Það munaði svo sjö mörkum þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 12:5.
Ísland skoraði næstu tvö mörk og minnkaði muninn í 12:7. Króatía svaraði og komst átta mörkum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 18:10. Var það munurinn í hálfleik, 20:12, og íslenska liðið í afar erfiðum málum.
Illa gekk að minnka muninn framan af í seinni hálfleik og munaði enn átta mörkum þegar tíu mínútur voru búnar, 24:16. Króatar náðu tíu marka forskoti í fyrsta skipti í stöðunni 27:17 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og lítið sem benti til annars en að Króatía myndi vinna stórsigur.
Munurinn var þó kominn niður í átta mörk þegar tíu mínútur voru eftir, 28:20. Það dugði hins vegar skammt því Króatar sigldu sigrinum örugglega í höfn.
Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá Íslandi með fimm mörk. Orri Freyr Þorkelsson og Aron Pálmarsson gerðu fjögur hvor og Sigvaldi Björn Guðjónsson þrjú.