Elsa Hrönn Reynisdóttir og fjölskylda hennar fengu leiðinlegar fréttir í morgun þegar í ljós kom að sonur hennar Bjarki Már Elísson leikur ekkert meira með íslenska landsliðinu á HM í handbolta vegna hnémeiðsla.
„Það er mikill skellur. Maður hugsaði í morgun að leikurinn verður öðruvísi. Það er skellur fyrir hann líka. Maður heldur samt að sjálfsögðu áfram með Íslandi og vonum að leikurinn vinnist,“ sagði Elsa þegar mbl.is hitti hana í Zagreb í dag.
„Ég verð rólegri í stúkunni núna þegar hann er ekki með. Þegar hann hættir að spila handbolta verða þessi mót allt öðruvísi,“ bætti hún við.