Portúgal er á leiðinni í átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í handknattleik en Spánverjar eru nánast úr leik eftir að Portúgalar höfðu betur í grannaslag þjóðanna í Bærum í Noregi í dag, 35:29.
Portúgal er komið með 7 stig og á eftir að mæta stigalausum Sílebúum í lokaumferð milliriðils þrjú á sunnudaginn. Þetta verður í fyrsta skipti sem Portúgalar leika í átta liða úrsllitum á HM.
Svíþjóð og Brasilía eru með 4 stig og mætast á eftir en Spánverjar eru aðeins með 3 stig og eiga bara eftir að mæta Brasilíu. Fimm stig munu aldrei duga þeim til að ná öðru sætinu.
Norðmenn eru með 2 stig en mæta Síle í kvöld og svo Svíþjóð á sunnudagskvöldið þannig að þeir eygja enn von um að ná öðru sætinu þrátt fyrir slæma byrjun á mótinu.
Spánverjar voru yfir í hálfleik, 16:15, og leikurinn var hnífjafn fram í miðjan síðari hálfleik en þá tóku Portúgalar völdin með því að skora sex mörk í röð og komust í framhaldi af því sex mörkum yfir, 30:24. Spánverjar minnkuðu muninn í þrjú mörk en komust ekki nær.
Francisco Costa fór á kostum með Portúgölum og skoraði átta mörk úr níu skotum. Salvador Salvador skoraði sex mörk. Daniel Fernández skoraði sex mörk fyrir Spánverja.
Sigur í riðlinum blasir jafnframt við Portúgölum sem þá munu mæta Þjóðverjum, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, í átta liða úrslitum.
Argentína vann Grænhöfðaeyjar, 30:26, í milliriðli fjögur og fékk þar með sín fyrstu stig. Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14. Argentína mætir Íslandi í lokaumferð milliriðilsins á sunnudaginn.
Í Forsetabikarnum vann Japan sigur á lærisveinum Arons Kristjánssonar í Barein, 31:27, og þar er jöfn barátta milli þessara tveggja liða og Bandaríkjanna um sigur í riðlinum. Öll liðin eru með 2 stig eins og er en Bandaríkin mæta Kúbu í kvöld.