Ungverjar í átta liða úrslit - Danir með fullt hús

Mathias Gidsel skoraði tíu mörk í dag.
Mathias Gidsel skoraði tíu mörk í dag. AFP/Ritzau Scanpix

Danmörk endar með fullt hús stiga í milliriðli eitt á heimsmeistaramótinu í handbolta eftir 28:22-sigur gegn Tékklandi í Herning í Danmörku í dag.

Danmörk vann riðilinn með 10 stig en Tékkland er í fimmta sæti með þrjú stig. Danir, sem voru þegar komnir áfram, mæta að öllum líkindum Brasilíumönnum í átta liða úrslitum.

Mathias Gidsel átti enn einn stórleikinn fyrir Danmörku en hann skoraði tíu mörk. Í liði Tékklands var Daniel Blaha markahæstur með fimm mörk.

Ungverjaland er komið í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins eftir sigur gegn Katar, 29:23, í Varazdin í Króatíu í dag.

Ungverjar enda í öðru sæti milliriðils tvö með sjö stig en Katar er á botninum með engin stig.

Ungverjinn Bence Imre fór á kostum og skoraði níu mörk í leiknum. Zarko Markovic var markahæstur fyrir Katar með sex mörk.

Ungverjar mæta sigurliðinu í riðli Íslands í átta liða úrslitunum og líklegast er að það verði Króatía.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert