Austurríki og Holland skildu jöfn, 37:37, í æsispennandi leik í milliriðli tvö á heimsmeistaramótinu í handbolta í Varazdin í Króatíu í dag.
Tobias Wagner og Sebastian Frimmel skoruðu sjö mörk hvor fyrir Austurríki. Lucas Steins var sömuleiðis með sjö mörk fyrir Holland.
Holland er í þriðja sæti riðilsins með fimm stig og Austurríki er í fimmta sæti með fjögur stig.
Sviss vann öruggan sigur gegn Ítalíu, 33:25, í milliriðli eitt á heimsmeistaramótinu í handbolta í Herning í Danmörku í dag.
Lenny Rubin fór á kostum í liði Sviss með níu mörk. Leo Prantner var markahæstur fyrir Ítalíu en hann skoraði sjö mörk.
Sviss fer upp fyrir Ítalíu í þriðja sætið með fimm stig en Ítalía er í fjórða sæti með fjögur stig.