Lærisveinar Alfreðs unnu auðveldlega

Marko Grgic skýtur að marki Túnis.
Marko Grgic skýtur að marki Túnis. AFP/Henning Bagger

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi unnu stórsigur gegn Túnis, 31;19, í milliriðli eitt á heimsmeistaramótinu í handbolta í Danmörku í kvöld.

Þýskaland endar í öðru sæti riðilsins með átta stig en hafði fyrir leikinn tryggt sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Túnis er á botni riðilsins með engin stig.

Mark Grgic var stórkostlegur og skoraði 11 mörk fyrir Þýskaland. Rayen Zariat var markahæstur hjá Túnis með þrjú mörk.

Þjóðverjar mæta væntanlega Portúgölum í átta liða úrslitum.

Frakkland með fullt hús stiga

Frakkland endar milliriðil tvö með fullt hús stiga eftir öruggan sigur gegn Norður-Makedóníu, 32;25, í Króatíu í kvöld.

Frakkland er á toppi riðilsins með 10 stig en Norður-Makedónía er í fjórða sæti með fjögur stig.

Eins og oft áður var Dika Mem markahæstur hjá Frakklandi en hann skoraði átta mörk. Filip Kuzmanovski skoraði sömuleiðis átta mörk fyrir Norður-Makedóníu.

Frakkar mæta liðinu í öðru sæti í riðli Íslands í átta liða úrslitum og það verður líkast til Egyptaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert