Haukur Þrastarson var eins og liðsfélagar sínir í íslenska landsliðinu í handbolta að sleikja sárin eftir tapið gegn Króatíu á HM í gær er mbl.is ræddi við hann í dag.
„Auðvitað var þetta erfitt í gær og mikil vonbrigði hvernig þetta fór allt saman. Það hefur verið verkefni að rífa sig upp úr því. Það er leikur á morgun og við verðum að tækla þessi vonbrigði. Það er það eina í stöðunni í dag,“ sagði Haukur og hélt áfram:
„Það er stutt á milli í þessu. Það er mjög súrt að staðan sé svona því við vorum á góðri leið og vorum að gera margt gott. Það vantaði upp á gegn Króötum. Það var því miður nóg til að staðan yrði svona.“
Haukur er Selfyssingur og fær stuðning frá sveitungum sínum og fjölskyldu.
„Það eru eflaust einhverjir Selfyssingar í stúkunni en ég þekki ekki alla. Maður tekur eftir því að fólkið heima á Selfossi styðji líka við bakið okkar á Selfossi. Fjölskyldan mín hefur líka verið dugleg að mæta á þessi mót og það er yndislegt að finna fyrir þeirra stuðning.“
Haukur hefur þurft að sætta sig við bekkjarsetu og að vera utan hóps á mótinu.
„Auðvitað vill maður alltaf spila. Það er það sama hjá öllum. Það er samt mikil samkeppni um stöður og í minni stöðu. Auðvitað vill maður samt alltaf spila,“ sagði Haukur.