Hugarfar Arons Pálmarssonar, landsliðsfyrirliða í handbolta, hefur breyst með árunum. Eftir að hafa tekið sér eitt ár frá atvinnumennsku og komið heim í FH sá Aron ferilinn í öðru ljósi.
„Ef þú tekur þig aðeins frá hlutunum og sérð þá utan frá þá kemur meira þakklæti og auðmýkt fyrir því sem þú ert að gera. Við erum á tíma og það eru margir þættir sem spila inn. Maður var búinn að vera í atvinnumennsku í 14 ár í einu, frá því ég var 19 ára, og það gerði mér gott að stíga aðeins frá og koma aftur.
Hausinn er alltaf að verða mikilvægari að mínu mati. Fyrir tíu árum sagði ég að þetta væri 50/50 en núna finnst mér hausinn 90% mikilvægur. Þú ferð ekki í ræktina nema að taka um það ákvörðun og hausinn ákveður það. Þetta er spurning um að láta þér líða vel,“ sagði Aron við mbl.is.
Aron hefur verið einn allra besti útileikmaður Íslands á HM og hann hrósaði liðsfélögunum þegar talið barst að því.
„Maður er kominn með tætara í kringum sig sem búa til pláss fyrir mig. Gísli, Janus og Viggó eru góðir í því að staðsetja sig vel og tímasetningarnar þeirra eru góðar. Þá opnast fyrir mig.
Ég er ekki mikið að fara maður á mann heldur sjá þeir um það. Þá eru varnarmennirnir seinni út og þá opnast fyrir skotin mín. Svo er orka og ákefð í þessu. Fyrir mér er 60 mínútna leikur ekki langur. Þú átt að geta gefið allt í 60 mínútur,“ sagði hann.