Selfyssingarnir Janus Daði Smárason og Teitur Örn Einarsson eru herbergisfélagar á HM í handbolta í ár. Janus er venjulega með Ómari Inga Magnússyni í herbergi en breyting var á í ár vegna meiðsla Ómars.
„Ég er með Teit og hann stendur sig vel. Ég er yfirleitt með Ómari en ég er án hans í ár. Það er leiðinlegt. Ég fékk Teit í staðinn og okkur líður mjög vel. Teitur er rólegur og það er ekkert vesen. Hann er með þægilega nærveru,“ sagði Janus við mbl.is.
En er einhver sem Janus væri ekki til í að vera með í herbergi?
„Ég myndi ekki nenna að standa í Ými. Maturinn á stórmótum fer oft ekki vel í hann. Ég ætla ekki að tjá mig meira um það. Annars er þægilegt að vera með öllum í herbergi,“ sagði Janus.