„Pólland er betra en ég bjóst við. Ég hafði efasemdir fyrst en svo hefur þetta verið mjög huggulegt,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, í samtali við mbl.is.
Viktor skipti úr Nantes í Frakklandi og til Wisla Plock í Póllandi síðasta sumar og kann vel við sig hjá nýju félagi í nýju landi.
„Þetta er mjög rólegt og við búum í lítilli borg. Þetta er kósí og það hentar mér mjög vel.“
Hjá Wisla Plock er Viktor með markvarðarþjálfara en slíkt var ekki hjá Nantes. Roland Eradze sinnir slíku í landsliðinu núna en Roland þjálfarði Viktor hjá Fram líka.
„Hann hugsar mikið um andlega þáttinn en svo er gott að koma til Rolands núna og fá líkamlegri æfingar. Þær reyna á þolið og það eru æfingar sem ég ólst upp við og þær henta mér vel,“ sagði hann.