Snorri færi frekar á crossfit-æfingu

Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Eyþór

„Ég þarf ekki að horfa á fleiri handboltaleiki,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson eftir sigur Íslands á Argentínu, 30:21, í lokaleik liðsins í milliriðli 4 á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í dag.

Ísland þarf nú að treysta á að Króatía eða Egypta­land tapi stig­um í sín­um leikj­um seinna í dag til að eiga mögu­leika á að fara í átta liða úr­slit­in.

„Ég er ánægður með strákana. Þetta var erfið fæðing, sem var kannski viðbúið. Tapið gegn Króötum sat í mönnum sem er ekki óeðlilegt. 

Við náðum síðan okkar vopnum og snerum þessu við fyrir hálfleikinn. Við vorum síðan mjög fljótir að ganga frá leiknum í seinni.

Mér fannst vera þyngsli yfir þessu. Þeir voru að reyna að hægja á leiknum en mér fannst við hægari. 

Við þurftum að færa okkur upp nokkra gíra og mér fannst við gera það. Við settum inn lið sem hentaði betur í það,“ sagði Snorri eftir leik. 

Ótrúleg staða að vera í 

Snorri segir stöðuna undarlega en Ísland bíður nú eftir því hvernig leikir kvöldsins fara. 

Þetta er skrýtin tilfinning. Þetta er ekki í okkar höndum sem er alltaf verra. Verandi með átta stig og einn lélegan hálfleik er það ótrúleg staða til að vera í, sérstaklega horfandi á hina riðlana. 

Svona er þó staðan og við getum ekkert gert í því núna.“

Ætlið þið að horfa á leikina saman? 

„Ég efast um að við gerum það í einhverri sameiningu. Mér finnst líklegra að ég fari á Crossfit-æfingu frekar, vitandi hvernig ég er í svona aðstæðum,“ bætti Snorri Steinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert