Stiven Tobar Valencia var kallaður inn í íslenska landsliðið í handbolta á HM vegna meiðsla Bjarka Más Elíssonar. Stiven var staddur í Frakklandi þegar fréttirnar bárust honum.
„Þetta var smá sjokk. Ég var í Nantes í Frakklandi á æfingamóti með Benfica. Ég var að borða og ekki með símann á mér því þá fáum við sekt. Eftir mat sá ég að Snorri var búinn að reyna að ná í mig og þá grunaði mig þetta,“ sagði hann við mbl.is.
Stiven var ekki með í leiknum við Króatíu þar sem fluginu hans til Zagreb frá París seinkaði.
„Ég reyndi að koma í tæka tíð fyrir leikinn en það tókst ekki. Ég tók fyrsta flug til Parísar og þaðan til Zagreb en fluginu seinkaði. Ég kom fimm mínútur fyrir leik og náði allavega að horfa á leikinn.“
Stiven hefur fylgst vel með íslenska liðinu og verið hrifinn af því sem hann hefur séð. Fyrri hálfleikurinn gegn Króatíu virðist hins vegar ætla að skemma mótið algjörlega fyrir íslenska liðið.
„Strákarnir eru búnir að vera ógeðslega flottir á þessu móti og maður finnur hvað andinn í hópnum er góður. Það getur verið stutt á milli í þessu og einn hálfleikur fer með þetta. Það er svekkjandi,“ sagði Stiven.