Danska skyttan Mathias Gidsel er óumdeilanlega besti handboltamaður heims. Það sýndi hann og sannaði á HM 2025 í Króatíu, Noregi og Danmörku, þar sem Danir urðu heimsmeistarar í fjórða sinn og fjórða skiptið í röð.
Gidsel, sem er örvhent skytta, var markahæstur á nýafstöðnu heimsmeistaramóti með 74 mörk. Þar af kom aðeins eitt mark úr vítakasti. Hann hefur nú orðið markahæstur á fjórum stórmótum í röð; HM 2025, Ólympíuleikunum 2024, EM 2024 og HM 2023.
Stórskyttan hefur þá verið valin mikilvægasti leikmaður tveggja síðustu heimsmeistaramóta og tveggja síðustu Ólympíuleika ásamt því að vera útnefndur besta hægri skyttan á EM 2024 og 2022 auk HM 2021. Hann er fyrsti leikmaðurinn í sögunni sem er valinn í úrvalslið stórmóta sjö skipti í röð.
Gidsel er leikmaður Füchse Berlín í þýsku 1. deildinni og kemur það eflaust fáum á óvart að hann sé markahæstur í henni með 132 mörk í 16 leikjum. Füchse er eitt af nokkrum liðum sem eru í toppbaráttu í þessari sterkustu deild heims og er þar í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Íslendingaliði Melsungen.
Með félagsliðum sínum hefur Gidsel orðið danskur meistari með GOG ásamt Viktori Gísla Hallgrímssyni landsliðsmarkverði Íslands vorið 2022 og vann Daninn svo Evrópudeildina með Füchse sumarið 2023.
Hann virðist sannarlega á hápunkti ferils síns um þessar mundir en rétt er að taka fram að Gidsel er ungur enn, aðeins 25 ára gamall, og því óhætt að segja hann enn hafa svigrúm til þess að bæta sig, og það mikið.
Ekkert bendir nefnilega til þess að Gidsel sé eitthvað að hægja á sér, þvert á móti. Það kemur ekki síst til vegna þess hvernig hann nálgast og hugsar um handknattleik.
„Ég æfi auðvitað mikið og fyrir mér er handbolti svolítið eins og nám. Ef þú vilt verða læknir ertu við nám í tíu ár. Ef þú vilt verða handboltamaður verður þú að gera slíkt hið sama.
Ég hugsa alltaf út í hvers vegna hlutirnir gerast á vellinum. Ég tel það kannski mikilvægustu spurninguna,“ sagði Gidsel í viðtali sem var birt á heimasíðu Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í september síðastliðnum.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.