„Þetta eru bara börnin mín“

Birna Baldursdóttir.
Birna Baldursdóttir. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Það er alltaf gaman að vinna. Þessi sigur var mikilvægur fyrir okkur núna. Það eru tveir leikir eftir og við stefnum á silfur. Við getum ekki ráðið því hvað Mexíkó gerir en auðvitað væri gaman ef þær myndu tapa en það er ólíklegt,“ sagði sigurreif Birna Baldursdóttir í samtali við mbl.is eftir 6:0 sigur Íslands á Tyrklandi í kvöld í 2. deild B á HM kvenna í íshokkí sem fram fer á Akureyri.

Eftir þennan sigur er íslenska liðið þremur stigum á eftir Mexíkó sem vann Nýja-Sjáland 1:0 í dag og m.v. undangengin úrslit á mótinu er ansi ólíklegt að Mexíkó tapi gegn Rúmenum og Tyrkjum. „Við fylgdumst spenntar með leiknum milli Mexíkó og Nýja-Sjálands,“ sagði Birna og vonuðust þær íslensku eftir því að Mexíkó myndi misstíga sig. Næsti leikur Íslands er einmitt gegn Nýja-Sjálandi á morgun, föstudag.

Ísland lék æfingaleik við þær fyrir mót sem Ísland vann: „Við ætlum að taka á móti þeim eins og síðast og við ætlum okkur sigur, það er ekkert annað sem kemur til greina. Þetta verður erfiður leikur og nú eru allir orðnir þreyttir og maður er kannski farin að taka öðruvísi ákvarðanir þegar þreytan er farin að síga í.“

Birna er aldursforseti íslenska liðsins en hún leikur í framlínu liðsins með stúlkum sem eru 19 og 20 árum yngri en hún: „Þetta eru bara börnin mín, lillurnar mínar. Þær eru yndislegar, frábær kylfutækni og gríðarlega efnilegar. Landslið framtíðarinnar mun vera eins og þær. Við gömlurnar tökum þetta á reynslunni, baráttunni og hausnum. Þetta er frábær blanda og virkar vel fyrir liðið.“

Það var ekki hjá því komist að nefna við Birnu umgjörðina og frábæran stuðning áhorfenda sem þær hafa fengið í vöggu íshokkísins á Íslandi, á Akureyri: „Þetta er náttúrulega bara geðveikt. Við erum ekki beint vanar að spila fyrir framan marga áhorfendur nema kannski okkar allra nánustu sem koma á deildarleiki. Þetta er bara frábært, sjöundi leikmaðurinn er hreinlega mættur með okkur inn á ísinn. Við erum svo þakklátar fyrir þennan stuðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert