Pétur var fljótastur að skora

Pétur Maack fagnar marki sínu eftir sjö sekúndur gegn Spáni …
Pétur Maack fagnar marki sínu eftir sjö sekúndur gegn Spáni á HM í Galati. Ljósmynd/Sorin Pana

Pétur Maack skoraði fljótasta markið í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí sem lauk í Galati í Rúmeníu í gærkvöldi.

Pétur kom Íslandi yfir í fyrsta leik liðsins á mótinu þegar hann skoraði eftir aðeins sjö sekúndur í 3:2-sigrinum gegn Spáni. Þetta var jafnframt fljótasta mark Íslands síðan á HM árið 2011, þegar Emil Alengård skoraði eftir 12 sekúndur í leik gegn Írum.

Það mark reyndist jafnframt fljótasta markið sem skorað var á HM það árið og eins og þá náði enginn að skáka Pétri í ár.

Besti leikmaður Íslands á mótinu í Galati í ár var valinn Robin Hedström. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp önnur þrjú í leikjunum fimm. 

Þá má geta þess að Jónas Breki Magnússon sat af sér flestar refsimínútur íslenska liðsins á þessu móti, eða alls 10 mínútur, í sínu síðasta landsliðsverkefni sem leikmaður Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert