Íslandsmeistarar UMFK Esju þreyta forvitnilega frumraun hér í Belgrad á morgun þegar þeir keppa fyrstir Íslendinga í Evrópukeppni félagsliða í íshokkí. Frá því að Íslandsmeistarar voru fyrst krýndir vorið 1992 hefur ekkert íslenskt félagslið reynt fyrir sér í móti á erlendri grundu, en leikmenn Esju þekkja margir hverjir að eiga við erlend lið með íslenska landsliðinu.
Esjumenn leika nú um helgina á 1. stigi Evrópukeppni félagsliða, Continental Cup, sem er lægra skrifaða Evrópukeppnin. Sterkustu lið álfunnar leika í Meistaradeildinni.
Esjumenn mæta fyrst heimamönnum í Rauðu stjörnunni, á morgun kl. 17.30, því næst búlgörsku meisturunum í Irbis-Skate Sofia á laugardag og loks Tyrklandsmeisturum Zeytinburnu Belediyespor frá Istanbúl á sunnudag. Efsta lið riðilsins kemst svo áfram á 2. stig.
Það lið sem kemst áfram mætir liðum frá Rúmeníu, Ungverjalandi og Spáni á 2. stigi, og er leikið í Rúmeníu dagana 20.-22. október. Efsta lið þess riðils kemst á þriðja stig og á möguleika á að komast í fjögurra liða úrslit. Sigurvegari keppninnar leikur svo í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, líkt og breska liðið Nottingham Partners gerir nú í vetur með góðum árangri.
Óhætt er að segja að Esja renni blint í sjóinn, þó að íslenska landsliðið hafi vissulega mætt landsliðum þeirra þjóða sem um er að ræða nú hér í Belgrad. Raunhæft markmið gæti verið að vinna 1-2 leiki, en hugsanlega gæti liðið komist áfram í gegnum 1. stigið. Það var Zeytinburnu sem afrekaði það í fyrra, en liðið vann þá Irbis-Skate 5:1 auk þess að rúlla yfir ísraelskt lið og vinna Partizan Belgrad, sem þá var fulltrúi Serbíu, 8:3. Zeytinburnu vann svo einn leik af þremur á 2. stigi keppninnar og féll úr leik.
Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála hjá liðinu þar til að mótinu lýkur á sunnudag.