UMFK Esja mátti þola stórt tap í fyrsta Evrópuleik íslensks félagsliðs þegar Esja mætti Rauðu stjörnunni í Belgrad í kvöld. Þetta var fyrsti leikur liðanna í 1. umferð Evrópukeppni félagsliða sem leikin er í Belgrad nú um helgina.
Fyrr í dag mættust hin tvö liðin í riðlinum, Zeytinburnu Belediyespor frá Tyrklandi og Irbis-Skate frá Búlgaríu, og unnu Tyrkirnir 4:3-sigur í spennuleik. Efsta lið riðilsins kemst áfram í næstu umferð. Næsti leikur Esju er á morgun við Irbis-Skate kl. 14 að íslenskum tíma.
Rauða stjarnan byrjaði leikinn við Esju mun betur og hafði nokkra yfirburði í fyrsta leikhluta. Pökkurinn endaði þrívegis í marki Esju áður en leikhlutanum lauk og alltaf var það Slóveninn David Sefic sem skoraði. Heimamenn fengu nokkur mjög góð færi til viðbótar en staðan var 3:0 eftir fyrstu 20 mínúturnar.
Heimamenn voru áfram ógnandi framan af öðrum leikhluta en þegar leið á hann náðu Esjumenn sér betur á strik, og Robbie Sigurðsson skoraði fyrsta Evrópumark íslensks félagsliðs þegar hann minnkaði muninn í 3:1 á 35. mínútu. Esja hélt áfram að sækja og fékk mjög góð færi til að minnka muninn enn frekar fyrir lok leikhlutans en það tókst ekki.
Lokin á öðrum leikhluta virtust gefa til kynna að Esja gæti fengið eitthvað út úr leiknum, en heimamenn leiðréttu þann misskilning fljótt í þriðja leikhluta. Þeir skoruðu tvö mörk á fyrstu fjórum mínútunum í honum og hleyptu Esjumönnum nánast ekki í sókn, enda fullmikið um að Íslandsmeistararnir væru sendir í refsiboxið. Sjötta mark heimamanna kom svo á 49. mínútu þegar þeir voru tveimur fleiri inni á svellinu.
Leikmannahópur Esju: Atli Snær Valdimarsson (M), Daníel Jóhannsson (M), Andri Þór Guðlaugsson, Aron Knútsson, Daniel Kolar, Egill Þormóðsson, Einar Sveinn Guðnason, Gunnlaugur Guðmundsson, Jan Semorád, Jón Andri Óskarsson, Konstantyn Sharapov, Markús Darri Maack, Ólafur Hrafn Björnsson, Petr Kubos, Pétur Maack, Robbie Sigurðsson, Róbert Freyr Pálsson.