„Við vitum eiginlega ekkert hvað við erum að fara út í,“ segir Gunnlaugur Thoroddsen, þjálfari UMFK Esju, en kl. 17.30 í dag mætir liðið heimamönnum í Rauðu stjörnunni í sínum fyrsta leik í Evrópukeppni félagsliða.
Á morgun mætir Esja svo búlgarska meistaraliðinu Irbis-Skate og loks Tyrklandsmeisturum Zeytinburnu Belediyesi á sunnudaginn. Allir leikirnir fara fram hér í Belgrad. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt félagslið leikur í Evrópukeppni.
„Við vitum í raun ekki neitt um hin liðin. Ég gat séð leikina þeirra frá því í fyrra en leikmannahóparnir eru mjög breyttir. Það er rosalega gott fyrir strákana að fá þessa reynslu – að spila á móti erfiðum liðum og andstæðingum sem þeir vita nánast ekkert um,“ segir Gunnlaugur. Hann ræddi við mbl.is eftir æfingu íslenska landsliðsins í keppnishöllinni í Belgrad í gær en átti þá eftir að verja næstu klukkutímum í að fylgjast með æfingum andstæðinganna þriggja.
Nokkuð er um forföll í íslenska hópnum en þeir Andri Freyr Sverrisson og Matthías Sigurðsson meiddust báðir í síðasta leik Esju fyrir ferðina til Belgrad:
„Það er rosalega erfitt að taka þrjá leiki á þremur dögum og maður þarf að passa að leikmenn hvíli sig, drekki nógu mikið af vatni og ráði við þetta álag. Hópurinn er þunnskipaður og það er mjög slæmt. Ég er með þrjár línur af sóknarmönnum, plús einn, og fimm varnarmenn. Það verður mjög erfitt að halda út en við bara vonum það besta,“ segir Gunnlaugur.
Gunnlaugur er nú einn þjálfari Esju eftir að hafa stýrt liðinu með Gauta Þormóðssyni síðasta vetur. Gauti, sem fluttist til Kanada og þjálfar þar, er þó með Esjumönnum í Belgrad.
„Það er mun betra að vera tveir í þessu. Ég hef alveg þjálfað einn áður, en það er mikið þægilegra að hafa einhvern með sér sem maður þekkir og treystir. Við Gauti unnum mjög vel saman síðasta vetur og höfum alltaf gert það, og hann er áfram með í þessu þó það sé ekki eins mikið og í fyrra,“ segir Gunnlaugur.
Á æfingu Esju í gær var hinn 29 ára gamli sóknarmaður Jan Semorád með í fyrsta sinn en hann lék síðast í Póllandi og varð þar áður tékkneskur meistari í tvígang. Skammt er síðan annar Tékki með enn glæsilegri ferilskrá, Petr Kubos, gekk í raðir Esju.
„Þeir lofa mjög góðu. Kubos á einhverja 800 leiki í efstu deild Tékklands og tíu landsleiki. Hann var valinn í nýliðavali NHL til Montreal. Þetta er rosalega góður gaur líka, og þegar maður talar við hann þá heyrir maður alveg að hann er með gríðarlega mikla þekkingu og reynslu sem atvinnumaður,“ segir Gunnlaugur.
Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á sunnudag.