Tékkarnir Jan Semorád og Petr Kubos eru svo til nýorðnir leikmenn Íslandsmeistara UMFK Esju í íshokkíi. Þeir stóðu sig báðir afar vel í Evrópukeppninni sem nú er að ljúka í Belgrad enda leikmenn með forvitnilega ferilskrá.
Semorád skoraði sitt annað mark á mótinu þegar Esja gerði 2:2-jafntefli við Tyrklandsmeistara Zeytinburnu en tapaði svo í vítakeppni, í lokaleik sínum í dag. Hann er mjög góður sóknarmaður en Kubos, sem valinn var besti maður Esju í leiknum, er 38 ára gamall og afar öflugur varnarmaður. Báðir hafa þeir orðið tékkneskir meistarar, en tékkneska deildin er mjög sterk, en þeir léku síðast í Póllandi:
„Hokkí er mjög ólíkt á milli Póllands og Tékklands þar sem allir eru hreinræktaðir atvinnumenn, og maður finnur þennan mun auðvitað líka á Íslandi. Það er minna bil á milli íslensku og pólsku deildanna en þó er sú pólska atvinnumannadeild. Það er erfitt að bera þetta saman. Strákarnir eru fagmenn en það er bara svo ólíkt að geta annars vegar alfarið einbeitt þér að íshokkíi og hins vegar að þurfa að vinna með því og spila sjaldnar. En við erum með bestu hokkímennina á Íslandi og þeir eru góðir,“ sagði Kubos.
Þeir Kubos og Semorád ræddu við blaðamann eftir leikinn við Zeytinburnu í dag og höfðu Daniel Kolar sér til fulltingis, en Daniel kom fyrst til Íslands fyrir 12-13 árum og talar góða íslensku. Nýju liðsmennirnir voru nokkuð sáttir með frammistöðu Esju á mótinu:
„Þetta var fín frammistaða hjá liðinu í ljósi þess að við vorum bara með 15 útileikmenn gegn hinum liðunum sem voru með fullskipaða hópa. Það er ansi strembið að spila svoleiðis, þrjá leiki á þremur dögum, en þessi síðasti leikur var samt mjög góður. Við áttum fullt af skotum og hefðum vel getað unnið,“ sagði Semorád.
„Við fengum fjölda færa í leiknum í dag og í gær þó að það hafi ekki skilað nægilega mörgum mörkum. Við vorum staðráðnir í að landa einum sigri og gáfum 100% í dag, eins og við sýndum þegar við jöfnuðum metin í 2:2 eftir að hafa lent 2:0 undir í þriðja leikhluta. Það var nóg af færum, líka í framlengingunni, og strákarnir stóðu sig frábærlega í þessum leik,“ sagði Kubos, og bætti við:
„Þetta er auðvitað erfitt þegar menn eru vanir því að spila kannski einn leik í viku á Íslandi. Þetta er svolítið nýtt og annað hérna en strákarnir stóðu sig mjög vel.“
Kubos kom til Esju fyrir hálfum mánuði en Semorád er nýbúinn að fá leikheimild og tók fyrstu æfingu sína með liðinu hér í Belgrad.
„Ég er aðeins búinn að kynnast því að búa á Íslandi og mér líst vel á þetta. Það er nýtt fyrir mér að vinna aðra vinnu með hokkíinu svo þetta er nýtt líf – næsta skref á minni ævi,“ sagði Kubos.
„Ég þekkti lítið til Íslands og Reykjavíkur áður en ég vona bara að þetta sé góð eyja. Ég verð í hokkíinu og mun svo vinna með því, vonandi eitthvað við að þjálfa krakka. Kannski verð ég í eitt ár hér, kannski fimm ár og kannski lengur,“ sagði Semorád.