„Við áttum þennan leik allan daginn. Við náðum bara ekki að koma pökknum inn. Markvörðurinn þeirra átti bara leik lífs síns. Þetta var súrt tap, en það er ágætt að hafa náð í stig á fyrsta mótinu,“ sagði Aron Knútsson, leikmaður Esju, eftir lokaleik liðsins í Evrópukeppni félagsliða í Belgrad.
Aron fagnaði 22 ára afmæli sínu í dag með því að láta vel til sín taka í leik Esju við Tyrklandsmeistara Zeytinburnu sem Esja tapaði að lokum í vítakeppni. Aron tók þátt þrátt fyrir að vera bersýnilega þjáður vegna meiðsla í hné:
„Við vorum fámennir, margir meiddir og einn farinn heim, en ég reyndi bara að pína mig áfram. Ég fer að hitta lækni þegar ég kem heim og vonandi getur hann gert eitthvað í þessu,“ sagði Aron, sem var ánægður með lokaleik mótsins enda talsvert annað að sjá til Esjuliðsins en í fyrstu tveimur leikjunum:
„Þetta small allt saman í þessum leik. Við vorum að spila Esjuhokkí; vorum harðir, skautuðum hratt, héldum góðri pressu og gerðum það sem þjálfarinn sagði okkur að gera,“ sagði Aron, ánægður með að hafa að minnsta kosti náð í eitt stig til Belgrad. „Þetta sýnir að við eigum fullt erindi í þetta. Við komum hingað á næsta ári og rústum þessu, reynslunni ríkari,“ sagði Aron.
Hann telur mótið gera Esju afar gott fyrir komandi átök við að verja Íslandsmeistaratitilinn:
„Það breytir öllu að vera að spila á alvörumóti en ekki einhverja æfingaleiki sem mönnum er sama um. Það var mun meiri alvara í þessu,“ sagði Aron sem ætlar sér að spila aftur í Evrópukeppninni að ári, sem Íslandsmeistari:
„Ég er mjög bjartsýnn á það. Við erum að koma saman núna strákarnir og höfum ekkert verið að tengja fyrr en núna á þessu móti, bæði utan og innan íss. Þetta hjálpar mikið við það.“