Grunnurinn lagður

Robbie Sigurðsson, Jan Semorád og Daniel Kolar fagna fyrsta marki …
Robbie Sigurðsson, Jan Semorád og Daniel Kolar fagna fyrsta marki íslensks félagsliðs í Evrópukeppni, sem Semorád skoraði. Ljósmynd/Srdjan Stevanovic

Íslandsmeistarar UMFK Esju stimpluðu sig út úr fyrstu Evrópukeppni íslensks félagsliðs í íshokkíi með hörkugóðri frammistöðu gegn Tyrklandsmeisturum Zeytinburnu í Belgrad í gær. Fáliðaðir, þreyttir og lurkum lamdir eftir stífa dagskrá í þessari frumraun áttu Esjumenn sinn besta leik í gær en urðu að sætta sig við tap í vítakeppni eftir að staðan var 2:2 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu.

Á laugardag tapaði Esja fyrir Irbis-Skate, búlgörsku meisturunum, eftir að hafa tapað stórt fyrir Rauðu stjörnunni í fyrsta leik. Uppskeran af mótinu varð því eitt stig en frammistaðan í gær og reynslan af mótinu mun eflaust nýtast liðinu vel við titilvörnina heima í Hertz-deildinni í vetur.

„Það er alltaf vont að tapa en mér fannst við eiga okkar besta leik á mótinu, án efa. Það var alveg í augsýn að ná fyrsta sigrinum og mjög svekkjandi að horfa á eftir því í vító,“ sagði Pétur Maack. Hann skoraði seinna mark Esju í þriðja leikhlutanum í gær þegar liðið átti líklega sínar bestu 15 mínútur á mótinu og náði að jafna metin eftir að hafa lent 2:0 undir. Eftir mark Péturs fengu Esjumenn góð færi á að tryggja sér sigur og það var eins og að baráttan, ákefðin og sigurviljinn væri af allt öðru tagi en í fyrstu tveimur leikjunum, einhverra hluta vegna:

„Algjörlega. Ég er alveg fullviss um að það vantaði eitthvað upp á karakterinn í fyrstu tveimur leikjunum. Við náðum alla vega að sýna hann í þessum leik. Það virtist vera að við ættum nóg eftir í þriðja leikhlutanum, og það er bara pirrandi og sárt að við skulum sýna það svona seint í mótinu hvað við getum,“ sagði Pétur. Mótið í heild sinni segir hann hins vegar koma til með að reynast dýrmætt fyrir Esjuliðið:

„Þetta er rosaleg viðbót við okkar inneign í reynslubankanum. Það er líka risastórt skref fyrir íslenskt íshokkí að við skulum hafa farið til að sýna okkur og sanna á erlendri grundu. Mér finnst magnað að hin liðin skuli ekki vera löngu búin að taka þetta skref og ég held að þau hafi bara ekki þorað í þetta mót,“ sagði Pétur.

Morgunblaðið og mbl.is voru með Esju í Serbíu og er nánar fjallað um Evrópuleiki Esju í íþróttablaði dagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert