Jónas Breki til Bjarnarins

Jónas Breki Magnússon í landsleik geng Spánverjum.
Jónas Breki Magnússon í landsleik geng Spánverjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jónas Breki Magnússon, næstleikjahæsti maður landsliðsins í íshokkí, er búinn að hafa félagaskipti yfir í uppeldisfélag sitt Björninn og verður löglegur þegar Björninn mætir Íslandsmeisturunum Esju í Hertz-deildinni í Egilshöll annað kvöld. 

Jónas Breki er 37 ára gamall og hefur marga fjöruna sopið í íshokkíinu en hann lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Bjarnarins tímabilið 1996-1997. Síðast lék hann með Birninum hér heima veturinn 2002-2003 og skoraði þá 15 mörk og átti 22 stoðsendingar. Lék hann 85 A-landsleiki fyrir Ísland og þann síðasta í fyrra. 

Jónas Breki hugðist hætta síðasta vor og hefur því ekki leikið í vetur. Erfitt er því að segja til um hversu mikið hann kemur við sögu í leiknum annað kvöld en hann er kominn til landsins og verður því væntanlega á leikskýrslu.

Stuðningsmenn Bjarnarins kætast væntanlega yfir því að endurheimta þennan kunna baráttujaxl frá Danmörku eftir 15 ára útlegð þar sem hann lék með Amager og Gladsaxe en Björninn verður nánast að vinna leikinn til þess að eiga einhverja möguleika á því að elta uppi Esju eða Skautafélag Akureyrar og komast í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn. 

Heimilt er að fá íslenska leikmenn að utan til 1. febrúar hafi þeir síðast spilað með viðkomandi félagi hérlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert