Þriðji leikur SA Víkinga og Esju í úrslitakeppninni í íshokkí karla fór fram í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Akureyringar höfðu unnið fyrstu tvo leikina og gátu því klárað seríuna með sigri.
Akureyringar virtust vera búnir að skipuleggja veislu sem ekki mátti fresta. Þeir voru allan tímann með yfirhöndina og unnu að lokum mjög sannfærandi sigur 6:2.
Heimamenn voru afar grimmir í byrjun leiks og á fyrstu mínútunum skoruðu þeir tvö mörk. Bart Moran og Jóhann Már Leifsson lögðu upp á hvorn annan en þeir tveir hafa verið bullsjóðandi í einvíginu. Næstu mínútur voru Esjumenn í vandræðum og aðeins töframarkvarsla Atla Valdimarssonar kom í veg fyrir þriðja mark SA. Smám saman vöknuðu Esjumenn og seinasta hluta fyrsta leikhlutans áttu þeir nokkrar góðar sóknir sem hefðu getað fært þeim mark. Flest skot þeirra geiguðu hinsvegar og það sem fór á markið tók Svíinn Tim Noting. Staðan var því 2:0 eftir fyrsta leikhlutann.
Leikurinn var svo í jafnvægi lengi vel í öðrum leikhluta. Það var svo tvöföld brottvísun Esjumanna um miðjan leikhlutann sem kom SA aftur í gang. Rétt áður hafði Egill Þormóðsson brennt af víti fyrir Esju og SA refsaði með tveimur mörkum. Bart Moran skoraði þegar Esjumenn voru tveimur mönnum færri og Jóhann Már skoraði svo fjórða markið skömmu síðar. Undir lokin skoruðu Esjumenn eftir að þeir höfðu brotið illa á markverðinum Tim Noting. Markið skoraði Jan Semorad. Staðan var því 4:1 fyrir lokaleikhlutann.
Þriðji leikhlutinn var lengi vel í höndum heimamanna þar sem Esjumenn voru töluvert í refsiboxinu. Engin mörk bættust við en Pétur Maack minnkaði muninn í 4:2 þegar rúmar tólf mínútur voru eftir. SA svaraði fljótlega með marki frá Jordan Steger og á lokakaflanum gáfu Esjumenn allt í leikinn en lítið gekk og SA stráði svo smá salti í sárin í lokin með sjötta markinu. Það skoraði Andri Már Mikaelsson. SA fagnaði því enn einum Íslandsmeistaratitlinum, líklega þeim tuttugasta og margir leikmenn liðsins hafa nú unnið vel á annan tug titla með liðinu.
Mörk/stoðsendingar:
SA Víkingar: Jóhann Már Leifsson 2/3, Bart Moran 2/1, Jordan Steger 1/1, , Andri Már Mikaelsson 1/0, Jón Benedikt Gíslason 0/1, Sigurður Sveinn Sigurðsson 0/1, Jussi Sipponen 0/1.
UMF Esja: Pétur Maack 1/0, Jan Semorad 1/0, Egill Þormóðsson 0/1.