Ein besta tilfinning sem ég hef upplifað

Robbie Sigurðsson á hótelinu í Tilburg.
Robbie Sigurðsson á hótelinu í Tilburg. mbl.is/Jóhann Ingi

Robbie Sigurðsson, landsliðsmaður í íshokkí, settist niður með blaðamanni mbl.is á hóteli liðsins í Tilburg í Hollandi í kvöld. A-riðill 2. deildar heimsmeistaramótsins hefst með leik á móti Ástralíu á morgun og er Robbie spenntur fyrir þriðja mótinu sem hann tekur þátt í með liðinu. 

„Þetta er þriðja mótið sem ég tek þátt í með íslenska landsliðinu. Þetta er búið að vera frábært. Aðstæðan og maturinn hér hefur verið fyrsta flokks, fyrir utan að æfingasvæðið í dag var heitara en það á að vera, annars hefur þetta verið frábært."

Vla­dimir Kolek tók við þjálfun liðsins af Magn­us Blårand á síðasta ári og Robbie ber honum vel söguna. 

„Æfingarnar hafa verið góðar og leikmenn og þjálfarar ná vel saman. Það verður spennandi að sjá hvert liðið nær undir hans stjórn. Fyrsti leikurinn er á morgun og vonandi byrjum við vel. Þetta hefur ekki breyst mjög mikið. Það eru nokkrir nýir leikmenn í liðinu, en annars hefur lítið breyst."

Alltaf mögnuð tilfinning að klæðast treyjunni

Robbie er bjartsýnn á að íslenska liðið geti náð langt á mótinu, en það verður að nýta þau tækifæri sem gefst. 

„Það veldur á okkur. Við getum náð eins langt og við viljum svo lengi sem við spilum saman og leggjum mikið á okkur. Við ætlum okkur gullið og við getum náð því. Við verðum að spila skynsamlega og ekki láta reka okkur út af. Svo verðum við að nýta öll þau færi sem gefast og þá eigum við góða möguleika."

Robbie á í bandaríska mömmu, en íslenskan pabba. Hann vildi alltaf spila fyrir Ísland og segir hann tilfinninguna vera magnaða. 

„Tilfinningin sem ég upplifði þegar ég fór í búninginn í fyrsta skipti er ein sú besta sem ég hef upplifað á ævinni. Það er alveg sama hvað ég spila marga landsleiki, það er alltaf mögnuð tilfinning að klæðast íslensku treyjunni."

Mörg félög hafa sýnt Robbie áhuga

Robbie lék með Esju á síðasta ári, en félagið verður lagt niður og sendir ekki lið til leiks á næstu leiktíð. Það verður því í nógu að snúast hjá Robbie eftir mótið, er hann tekur ákvörðun um framtíð sína. 

„Ég er óviss um framhaldið. Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Ég hef verið í viðræðum við atvinnumannafélag í Póllandi ásamt nokkrum félögum í Bandaríkjunum. SR kemur svo til greina ef ég fer aftur til Íslands. Ég er með nokkur tilboð og ég þarf að vanda valið. Það eru svo nokkrir þjálfarar að fylgjast með mér hér," sagði Robbie Sigurðsson, landsliðsmaður í íshokkí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert