Ísland tapaði fyrir Ástralíu, 3:0, í fyrsta leik sínum í B-riðli 2. deildarinnar á heimsmeistaramótinu í íshokkí í Tilburg í Hollandi í dag. Ástralarnir voru heilt yfir sterkari aðilinn og þrátt fyrir mörkin þrjú átti Dennis Hedström í marki Íslands sannkallaðan stórleik.
Ástralska liðið fór betur af og sótti vel á íslenska liðið. Dennis Hedström í markinu varði nokkrum sinnum glæsilega og var stærsta ástæða þess að staðan var markalaus þangað til á 18. mínútu en þá skoraði Per Göransson með föstu skoti. Ísland fékk þokkaleg færi inn á milli, en marki Anthony Kimlin var ekki ógnað af neinu ráði. Staðan eftir 1. leikhluta var því 1:0, Ástralíu í vil.
1. leikhlutinn spilaðist á svipaðan hátt og sá fyrsti. Ástralía sótti mun meira, en það gekk illa að finna leiðir framhjá mögnuðum Dennis Hedström í marki Íslands. Íslenska liðinu gekk illa að skapa sér færi, en Ástralir náðu ekki að bæta við marki, þrátt fyrir mjög góð færi.
Leikurinn var jafnari í 3. leikhluta og reyndi minna í Heström í marki Íslands. Hinum megin komst íslenska liðið í nokkrar ákjósanlegar stöður, en enn gekk illa að skapa virkilega gott færi. Induss Edmunds fékk tveggja mínútna brottvísun skömmu fyrir leikslok og það nýttu liðsmenn Ástralíu sér því skömmu síðar skoraði Robert Mallory.
Ísland freistaði þess að ná inn marki í lokin og léku án markmanns þegar rúm mínúta var eftir. Það gekk hins vegar ekki því Thomas Powell skoraði í autt markið eftir misheppnaða sókn og gulltryggði sanngjarnan ástralskan sigur.