Í járnum eiginlega allan leikinn

Róbert Freyr Pálsson í leiknum í dag.
Róbert Freyr Pálsson í leiknum í dag. Ljósmynd/Stefán Örn

Róbert Freyr Pálsson, landsliðsmaður í íshokkí, var svekktur eftir 3:0-tap fyrir Áströlum í fyrsta leik Íslands í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Tilburg í Hollandi. Ástralir skoruðu tvö síðustu mörk leiksins í blálokin, en fram að því fékk Ísland ágæt tækifæri til að jafna leikinn. 

Róbert segir að hægt sé að bæta sóknarleikinn hjá íslenska liðinu. 

„Mér fannst þetta vera í járnum eiginlega allan leikinn, þó þeir voru skipulagðari en við. Við vorum að verjast mjög vel og Dennis var mjög góður í markinu, en við vorum ekki að koma okkur í nógu góð færi. Það vantaði að koma pökknum á markið og ná fráköstum. Það skapar alltaf mikla hættu en þeir voru duglegir í vörninni. Þetta var erfitt."

Hann er ánægður með innkomu yngri leikmanna, en á köflum voru þrír leikmenn fæddir árið 2000 og síðar á svellinu á sama tíma. 

„Þeir eru að koma mjög vel inn í liðið. Þeir eru að standa sig mjög vel og það er gaman að sjá hvernig þeir eru að aðlagast. Þeir eiga flotta framtíð í landsliðinu."

Á morgun er leikur á móti Hollandi, sem fyrirfram er talið sterkasta lið riðilsins. 

„Það verður mjög erfiður leikur og við þurfum að spila mjög góða vörn. Dennis þarf að vera jafn góður ef ekki enn betri en í dag. Þetta verður hörkuleikur og við verðum líklegast mikið í vörn, en það er allt hægt í íshokkí," sagði Róbert Freyr Pálsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert