Íslenska landsliðið átti ekki möguleika í það hollenska er þau mættust í 2. deild heimsmeistaramótsins í Tilburg í dag. Heimamenn sóttu nánast stanslaust frá byrjun og unnu sannfærandi 11:1-sigur.
Hollendingarnir sóttu nokkuð stíft að marki Íslands frá fyrstu mínútu og það tók þá átta mínútur að brjóta ísinn. Það gerði Julian van Lijden með skoti af stuttu færi eftir sendingu þvert fyrir mark Íslands. Tveimur mínútum síðar slapp Reno de Hondt í gegn og laumaði pökknum framhjá Dennis Hedström í marki Íslands.
Hollendingar voru ekki hættir í leikhlutanum því á 15. mínútu skoraði Mitch Bruijsten eftir darraðardans við mark Íslands. Dennis var ekki sáttur og taldi að markið ætti ekki að standa. Íslenska liðið fékk ágæt tækifæri á meðan það var manni fleiri, en þess fyrir utan stóð vörn Hollands vel og Ísland náði ekki krafti í sóknarleik sinn.
Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrst endaði. Holland sótti og sótti og kom fjórða markið á 27. mínútu. Það gerði Raphael Joly og þremur mínútum síðar skoraði Jurryd Smid er hann nýtti sér að liðsmenn Íslands voru manni færri, þar sem þeir gerðust sekir um að vera með of marga leikmenn inn á og því var dæmd tveggja mínútna brottvísun.
Í stöðunni 5:0 fór íslenska liðið að sækja meira og skapaði sér ágæt færi. Induss Edmunds fékk það besta er hann komst einn gegn markmanni Hollendinga, en náði ekki að skora. Sjötta mark Hollendinga kom þremur mínútum fyrir lok leikhlutans, en það gerði Julian van Lijden. Staðan fyrir síðasta leikhlutann var því 6:0.
Eftir aðeins fjórar mínútur var staðan orðin 8:0 því Giovanni Vogelaar og Mickey Bastings skoruðu báðir á 44. mínútu. Níunda markið kom tveimur mínútum síðar og enn 14 mínútur eftir og tíunda markið sex mínútum fyrir leikslok.
Axel Snær Orongan skoraði fyrsta mark Íslands á mótinu fimm mínútum fyrir leikslok er hann kom pökknum í netið af stuttu færi eftir góðan samleik við Andra Mikaelsson og staðan 10:1. Hollendingar áttu hins vegar síðasta orðið og endaði leikurinn því með tíu marka sigri heimamanna.