Ísland stigalaust þrátt fyrir endurkomu

Íslenska landsliðið leikur við Belga í dag.
Íslenska landsliðið leikur við Belga í dag. Ljósmynd/Stefán Örn

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí er enn stigalaust í B-riðli 2. deildarinnar á heimsmeistaramótinu í Tilburg eftir 6:3-tap fyrir Belgíu í dag. Belgía komst í 4:0, áður en Ísland minnkaði muninn í 4:3 í síðasta leikhlutanum. Belgar refsuðu hins vegar grimmilega fyrir mistök í lokin og tryggðu sér öll stigin. 

Íslenska liðið byrjaði frekar vel og komst í nokkrar álitlegar sóknir framan af í fyrsta leikhluta. Ljóst var að belgíska liðið var jafnara að styrkleika Íslands en Ástralía og Holland. Belgar komust aðeins meira inn í leikinn eftir því sem leið á 1. leikhluta, en heilt yfir var leikhlutinn mjög jafn og liðin skiptust á að sækja.

Það voru hins vegar Belgar sem skoruðu fyrsta markið á 13. mínútu, en það var í fyrsta skipti sem belgíska liðið setti alvöru pressu á það íslenska. Ben van den Bogaert setti þá pökkinn í netið af stuttu færi. Íslenska liðið svaraði ágætlega og komst nokkrum sinnum nærri því að skora á síðustu mínútum leikhlutans en inn vildi pökkurinn ekki og staðan 1:0 er liðin gengu til búningsklefa eftir 1. leikhluta.

Fyrstu mínútur 2. leikhluta voru jafnar, en eftir því sem leið á leikhlutann náðu Belgar meiri stjórn á leiknum. Billy Denis skoraði annað markið á 27. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Yoren de Smet við þriðja markinu. Belgar fengu fín tækifæri til að skora fleiri mörk í leikhlutanum en Dennis Hedström stóð vaktina ágætlega í markinu. Hinum megin voru færi fá og langt á milli þeirra og var staðan fyrir síðasta leikhlutann því 3:0.

Íslenska liðið reyndi hvað það gat að minnka muninn í 3. leikhluta, en það vantaði að setja meiri pressu á Arthur Legrand í marki Belga. Þegar pressan virtist vera aukast við mark Belganna, fengu þeir eina skyndisókn og Bryan Henry skoraði fjórða markið á 49. mínútu.

Ísland var hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp því Robbie Sigurðsson minnkaði muninn í 4:1 53. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Hafþór Andri Sigrúnarson annað markið og gaf íslenska liðinu vonarneista. Sá neisti varð enn sterkari tveimur mínútum fyrir leikslok er Robbie skoraði sitt annað mark.

Ísland freistaði þess að jafna, en fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson gerði sig sekan um slæm mistök rúmri mínútu fyrir leikslok er hann missti pökkinn á hættulegum stað og Alexandre Bremer refsaði með fimmta marki Belga. Maxime Pellegrims skoraði svo sjötta markið augnabliki síðar er Ísland leik án markmanns til að freista þess að skora.

Belgía 6:3 Ísland opna loka
61. mín. Robbie Sigurðsson (Ísland) Textalýsing Robbie er valinn besti maður Íslands í leiknum. Hann skoraði tvö mörk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert