Ísland fallið eftir fjórða tapið

Ísland mætir Kína í gríðarlega mikilvægum leik í dag.
Ísland mætir Kína í gríðarlega mikilvægum leik í dag. Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí er fallið úr A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins eftir afar svekkjandi 3:1-tap á móti Kína í fjórða leik liðsins í Tilburg í dag. Ísland var síst lakari aðilinn, en Kínverjar nýttu færin sín betur. Þó einn leikur sé eftir í riðlinum er ljóst að Ísland leikur í B-riðli á næsta ári. 

Kínverjar byrjuðu betur og fengu nokkur færi á fyrstu mínútunum. Eftir því sem leik á fyrsta leikhlutann komst íslenska liðið meira inn í leikinn, en það tókst illa að skapa alvöru færi. Staðan eftir leikhlutann var markalaus, en Kínverjar fengu heilt yfir fleiri og betri færi.

Íslenska liðið byrjaði betur í öðrum leikhluta og fékk nokkur færi áður en Bjarki Reyr Jóhannesson kom Íslendingum yfir í fyrsta skipti á mótinu er hann rak endahnútinn á langa og þunga sókn íslenska liðsins. Sigurður Freyr Þorsteinsson fékk skráða á sig stoðsendingu, en hann átti skot sem var vel varið áður en Bjarki skoraði með frákastinu.

Næstu mínútur áttu eftir að vera erfiðar fyrir íslenska liðið. Kínverjar reyndu hvað þeir gátu til að jafna og ekki hjálpaði að Björn Már Jakobsson og Hafþór Andri Sigrúnarson fengu báðir tveggja mínútna brottvísun með um 30 sekúndna millibili. Íslendingar voru því þrír á móti fimm í eina og hálfa mínútu. Þrátt fyrir nokkuð þunga sókn tókst Kínverjum hins vegar ekki að jafna leikinn.

Þegar liðin voru fullskipuð tók íslenska liðið völd á leiknum, en þrátt fyrir nokkur mjög góð færi tókst ekki að bæta í forskotið áður en leikhlutinn var allur og var staðan fyrir síðasta leikhlutann því 1:0, Íslandi í vil.

Liðin skiptust á að fá fín færi í þriðja leikhluta en það veru Kínverjar sem nýttu eitt slíkt á 48. mínútu en þá skoraði Zesen Zhang með föstu skoti upp í hornið og jafnaði í 1:1. Mínútu síðar nýttu Kínverjar sér liðsmuninn eftir að Bergur Árni Einarsson var rekinn af velli í tvær mínútur. Wei Zhong skoraði þá, er hann fékk tvær tilraunir í góðu færi. Þriðja mark Kínverja kom svo undir lokin er íslenska liðið lék án markmanns til að freista þess að jafna.

Íslenska liðið var síst lakari aðilinn í dag, en þarf hins vegar að sætta sig við fall úr deildinni.

Kína 3:1 Ísland opna loka
60. mín. Kína Leik lokið Þannig fór nú það. Ísland er fallið í B-riðilinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert