Mikil sorg í hausnum á mér núna

Bergur Árni Einarsson í leiknum í dag.
Bergur Árni Einarsson í leiknum í dag. Ljósmynd/Stefán Örn

„Það er mikil sorg í hausnum á mér akkúrat núna. Þetta er leikur sem við áttum ekki að tapa," sagði Bergur Árni Einarsson, landsliðsmaður í íshokkí eftir 3:1-tap á móti Kína í dag. Tapið þýðir að íslenska liðið er fallið úr A-riðli 2. deildarinnar og niður í B-riðilinn. 

Íslenska liðið var ekki síðra en það kínverska í dag en andstæðingarnir nýttu færin sín betur. 

„Við vorum að spila leikinn vel en pökkurinn vildi ekki detta inn þrátt fyrir mörg tækifæri. Það er eitthvað sem vantaði og eitthvað sem var ekki alveg að smella hjá okkur. Í vörninni vorum við að gera sömu mistökin og skilja menn eftir opna og það má ekki á móti neinu liði."

Staðan var 1:0, Íslandi í vil þegar síðasti leikhlutinn fór af stað. 

„Það sem virkaði vel er að við kláruðum betur að stoppa mennina okkar í staðinn fyrir að skauta framhjá þeim eins og við höfum verið að gera. Við vildum keyra á þá harðar og menn voru að gera það. Menn voru að lesa hvorn annan og við komumst í góð færi en það vantaði eitthvað aðeins upp á."

Ísland leikur við Serbíu á morgun, en sigur í þeim leik gerir lítið fyrir Ísland í riðlinum. 

„Við verðum bara að halda áfram. Það er erfitt að endurræsa sig eftir svona leik en það þýðir ekkert annað en að halda áfram og spila hann með reisn," sagði Bergur Árni að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert