„Munurinn var sá að þeir skoruðu á meðan við vorum manni færri, en við náðum því ekki," sagði Vladimir Kolek, landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í íshokkí eftir 3:1-tap á móti Kína í fjórða leik liðsins á heimsmeistaramótinu í Tilburg í dag. Tapið þýðir að Ísland er fallið úr A-riðli 2. deildarinnar og niður í B-riðil.
„Ég var mjög ánægður með hvað menn lögðu mikið á sig í leiknum. Hann var mikil bæting frá síðasta leik. Við sköpuðum mörg færi en við náðum ekki að skora annað markið. Leikurinn hefði verið mun þægilegri ef við hefðum náð 2:0-markinu. Við töpuðum einvígi á okkar vallarhelmingi í fyrsta markinu þeirra og svo skora þeir annað markið þegar þeir voru manni fleiri. Við vorum ekki nógu ákveðnir þegar við sóttum manni fleiri."
Kolek ákvað að taka Denni Hedström, markmann Íslands, úr markinu þegar tæplega tvær mínútur voru eftir.
„Við vildum vera manni fleiri og pressa á andstæðinginn. Þeir náðu að skora og það er ekkert við því að segja, en við þurftum að reyna. Pökkurinn var á þeirra vallarhelmingi þess vegna prófuðum við það snemma."
Landsliðsþjálfarinn vildi ekki tjá sig um fall íslenska liðsins eftir leikinn, þar sem það er einn leikur eftir í riðlinum.
„Við eigum enn eftir að spila við Serbíu og við einbeitum okkur að þeim leik fyrst. Mótið er ekki búið enn þá þó við séum fallnir. Ég og liðið verðum að undirbúa okkur fyrir þann leik og reyna að ná í fyrsta sigurinn," sagði Kolek að lokum.