Ég vil þakka Úlfari fyrir markið

Bjarki Reyr Jóhannesson í leik á mótinu.
Bjarki Reyr Jóhannesson í leik á mótinu. Ljósmynd/Stefán Örn

„Þetta er ömurleg tilfinning," sagði svekktur Bjarki Reyr Jóhannesson, landsliðsmaður í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir fimmta tapleik Íslands á heimsmeistaramótinu í Tilburg, Hollandi. 

Íslenska endaði án stiga og í neðsta sæti A-riðlilsins og leikur því í B-riðlinum á næsta ári.  

„Það er sérstaklega leiðinlegt því við erum með ágætis lið og það voru leikir þarna sem við áttum að vinna eins og leikirnir við Kína og Belgíu, við hefðum tekið þá á góðum degi. Þetta féll ekki með okkur í ár. Þetta snýst bæði um hugarfar og svo höfum við verið óheppnir. Núna er að hugsa um næsta ár og drífa okkur upp um deild aftur. Við eigum klárlega heima í þessari deild."

Bjarki var með betri mönnum Íslands á mótinu og skoraði hann tvö mörk. Annað þeirra kom í kvöld, en hann var hógvær er talið barst að markinu. 

„Ég er nokkuð sáttur með mína frammistöðu en það eru hlutir sem hægt er að gera betur líka. Í kvöld vil ég þakka Úlfari fyrir markið. Hann átti 90% af vinnunni á bak við þetta. Hann var helvíti flottur og ég á lítinn heiður af þessu marki, þó þetta hafi verið ágætlega klárað."

Sóknarmaðurinn er sannfærður um að íslenska liðið geti farið upp um deild, strax á næsta ári. 

„Ef við myndum mæta með þetta lið og spila okkar leik munum við fljúga beint upp aftur, ég hef trú á því. Það er samt ekkert sjálfsagt. Þetta er mjög ungt lið og við verðum flottir í framtíðinni," sagði Bjarki Reyr Jóhannesson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert