Úlfar Jón Andrésson, leikmaður Fjölnis og landsliðsmaður í íshokkí, var í síðasta mánuði fenginn í viðtal hjá NHL Now, spjallþætti bandarísku íshokkídeildarinnar NHL. Ástæðan fyrir því var meðal annars athyglisverð uppátæki sem hann hefur staðið fyrir, þar á meðal íshokkíleikjum í mörg þúsund ára gömlum gígum.
Úlfar heldur úti vinsælum Instagram-aðgangi, @IcelandActivities, þar sem hann gerir ævintýrum sínum og fjölskyldu sinnar skil með athyglisverðum myndskeiðum og ljósmyndum, þar sem íslensk náttúra er í stóru hlutverki.
Iceland Activities er sömuleiðis útivistarfyrirtæki Úlfars og fjölskyldu hans, þar sem hinar ýmsu ferðir og hópefli er skipulagt.
Í viðtalinu við NHL Now segir Úlfar frá því hvernig hann hafi svo að segja fæðst inn í þennan ævintýralífsstíl þar sem fjölskylda hans hafi alla tíð verið ævintýragjörn. Hann hafi ungur að árum byrjað að æfa íshokkí, svo hafi hann farið að skauta á stöðuvötnum og það hafi undið upp á sig.
Fjölskylda hans fór í kjölfarið að skauta, fara á róðrabretti (e. paddleboard) og renna fyrir fisk í gígum, auk þess að tjalda í grennd við þá og þar með var það komið í vana að skipuleggja skemmtilegar athafnir í tengslum við gíga.
NHL velur „Skapara vikunnar“ í hverri viku og kom það í hlut Úlfars að vera valinn fyrir vikuna 15. – 21. febrúar síðastliðinn. Skapari vikunnar er valinn fyrir að vekja athygli á og stuðla að aukinni vegsemd íshokkís.
Myndbönd Úlfars af því þegar hann er að rekja pökkinn eða spila með föður sínum eða vinum í gígum og við fossa voru sannarlega talin gera það. En hvernig var að fara í viðtal hjá NHL Now?
„Það var mikill heiður að fá viðtal hjá þeim og góð kynning fyrir fyrirtækið, hokkí á Íslandi og útiskautamenninguna hér,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.
Hann segir það sömuleiðis hafa verið mikinn heiður að hafa verið valinn Skapari vikunnar hjá NHL. Fólkið hjá NHL Now hafði verið búið að fylgjast með og eiga í samskiptum við Úlfar um nokkurt skeið og var því nokkur aðdragandi að viðtalinu og valinu.
Úlfar segist aðallega halda til á Hengilssvæðinu, Nesjavöllum og svæðinu þar í kring þegar hann skautar eða spilar íshokkí í gígum. Honum telst til að hann hafi spilað hokkí í samtals fimm gígum hér á landi, öllum á nærsvæði sínu, en Úlfar er búsettur í Hveragerði þar sem fyrirtækið Iceland Activities gerir sömuleiðis út.
„Ég hef skipulagt tvo stóra hokkíviðburði á Íslandi. Svo hef ég skipulagt einn viðburð í Yellowknife í Kanada með vinum mínum frá Kanada. Viðburðurinn sem við skipulögðum í Kanada var kortér í Covid, það var í febrúar 2020. Þá spiluðum við á vötnunum í Yellowknife, spiluðum undir norðurljósunum, settum upp tjald og eld við fjallið. Það var allt rosalega flott.
Svo var ég með sama hóp árið áður, fyrir rúmlega tveimur árum, Við gengum upp á heiði og fundum sprengigíg, tjölduðum í gígnum og spiluðum hokkí morguninn eftir þegar við vöknuðum,“ segir Úlfar.
Hann hafði ekki mikið verið í því að deila sínu persónulega lífi á Iceland Activities-aðganginum á Instagram en þegar kórónuveirufaraldurinn skall á ákvað hann sameina þetta tvennt, enda bæði persónulega lífið og fyrirtækið hlaðið ævintýrum í tengslum við útivist.
„Ég var ekki að blanda persónulega lífinu mínu inn á fyrirtækisreikninginn en núna í Covid ákvað að ég að byrja að deila meira, þá byrjaði ég að deila frá þessum hluta af lífinu. Ég var til dæmis ekki að sýna neitt frá því þegar við vorum að skauta fyrir þremur árum á gígunum. Það var svo ekki fyrr en ég fékk mér dróna að þetta fór almennilega af stað,“ segir Úlfar.
Hann bætir því við að hann sé með stóran viðburð í tengslum við útihokkí í bígerð, sem hann áætlar að fari fram í júní eða júlí á þessu ári. „Það er alveg næsta „level“ og hefur aldrei verið gert áður. Sá viðburður mun fá rosalega athygli,“ segir Úlfar Jón Andrésson að lokum í samtali við mbl.is.