SA lenti ekki í nokkrum vandræðum með SR þegar liðin áttust við annan daginn í röð á Íslandsmóti kvenna í íshokkíi, Hertz-deildinni í Skautahöllinni á Akureyri í morgun.
SA vann 7:0-sigur í gær og vann einnig stórt í dag, 8:2.
Staðan var orðin 4:0 að lokinni fyrstu lotu og eftirleikurinn reyndist auðveldur fyrir heimakonur.
Berglind Leifsdóttir skoraði tvívegis fyrir SA auk þess sem þær Aðalheiður Ragnarsdóttir, Anna Ágústsdóttir, Gunnborg Jóhannsdóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Eva Karvelsdóttir og Sólrún Arnardóttir komust allar á blað.
Alexandra Hafsteinsdóttir og Friðrika Magnúsdóttir skoruðu mörk SR.
SA er sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 30 talsins, 12 stigum fyrir ofan Fjölni í öðru sætinu.
SR situr á botninum án stiga.