Keflavík Íslandsmeistari eftir æsispennandi nágrannaslag

Keflvíkingar ráða ráðum sínum í viðureigninni við Njarðvík.
Keflvíkingar ráða ráðum sínum í viðureigninni við Njarðvík. Morgunblaðið

Keflvíkingar tryggðu sér fyrir stundu Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik með sigri á nágrönnum sínum og erkifjendum úr Njarðvík, 88:82. Keflvíkingar höfðu undirtökin allan fyrri hálfleik en gestirnir náðu að komast yfir í byrjun síðari hálfleiks en þá tók besti maður vallarins, Falur Harðarson, til sinna ráða og dró vagninn fyrir Keflvíkinga.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 14:3 á upphafsmínútunum en þá tók Friðrik Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur leikhlé og náði að róa sína menn sem tókst að minnka muninn og halda muninum innan við 10 stig fram að hálfleik en þá var staðan 49:40 heimamönnum í vil. Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og náðu forystunni 51:53 og eftir það skiptust liðin á um forystuna fram í miðjan síðari hálfleikinn er áðurnefndur Falur Harðarson tók til sinna ráða, raðaði niður þriggja stiga körfunum og rak sína menn áfram. Keflvíkingar eru svo sannarlega vel að titlinum komnir, þeir urðu deildarmeistarar með nokkrum yfirburðum og sýndu og sönnuðu í úrslitakeppninni að þeir eru vel að titlinum komnir. Njarðvíkingar geta hins vegar huggað sig við það að þeir sigruðu Keflvíkinga í bikarúrslitunum og eru því ekki allslausir að vetrinum loknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert