Einar Örn Birgisson hefur ákveðið að leika ekki með KR í úrvalsdeildinni í knattspyrnu í sumar og vill komast frá félaginu þótt hann eigi tvö ár eftir af samningi sínum. Einar Örn sagði við Morgunblaðið í gær að það væru samskiptaörðugleikar við þjálfarann, Pétur Pétursson, sem réðu þessari ákvörðun sinni.
"Ég er samningsbundinn KR en stjórn félagsins hefur skilning á mínum málum og ég vonast eftir því að geta gengið til liðs við annað íslenskt félag sem allra fyrst," sagði Einar Örn, sem kom til KR fyrir síðasta tímabil frá Lyn í Noregi en hafði áður leikið með Reykjavíkurfélögunum Þrótti, Val og Víkingi. Einar Örn missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en lék 6 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði 2 mörk. Hann hefur skorað nokkuð af mörkum fyrir Íslands- og bikarmeistarana í vetrarmótunum að undanförnu.