Breiðablik hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir átökin í úrvalsdeildinni í körfuknattleik næsta vetur. Jón Arnar Ingvarsson fyrrverandi landsliðsmaður úr Haukum, skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Breiðablik og verður hann spilandi þjálfari hjá liðinu. Hann tekur við starfinu af Eggerti Garðarssyni sem mun þjálfa sitt gamla félag ÍR.
Jón Arnar hefur leikið allan sinn feril hjá Haukum, utan þess er hann var atvinnumaður til skamms tíma. Hann kom fyrst inn í úrvalsdeildina árið 1988 og hefur leikið 314 deildarleiki til þessa. Bróðir hans Pétur Ingvarsson þjálfar einnig í úrvalsdeildinni en hann er spilandi þjálfari hjá Hamri. Faðir þeirra Ingvar Jónsson var lengi körfuknattleiksþjálfari hjá Haukum.