Bandaríski körfuknattleikskappinn Kobe Bryant, leikmaður Los Angeles Lakers, fór hamförum með liði sínu í nótt þegar Lakers sigraði Toronto, 122:104. Bryant gerði sér lítið fyrir og skoraði 81 stig. Hann skoraði 26 stig í fyrri hálfleik en hvorki meira né minna en 55 stig. Hann er fjórði leikmaðurinn í sögu NBA sem tekst að skora meira en 70 stig. Sá sem flest stig hefur skorað í einum leik er goðsögnin Wilt Chamberlain en hann skoraði 100 stig fyrir Philadelphia í leik gegn New York árið 1962.
Bryant lék í 42 mínútur. Hann skoraði úr 28 skotum af 46 innan teigs, setti niður 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum, skoraði úr 18 af 20 vítaskotum sínum, tók 6 fráköst, átti 2 stoðsendingar og stal boltanum í þrígang.
„Mig dreymdi ekki einu sinni um þetta þegar ég var strákur," sagði Bryant eftir leikinn. „Þetta var ekki möguleiki."
Áhorfendur í Staples Center, heimavelli Lakers, stóðu upp og klöppuðu Bryant ákaft lof í lófa þegar hann yfirgaf leikvöllinn 4,2 sekúndum fyrir leikslok.
Úrslit annarra leikja voru þessi:
Seattle SuperSonics 152, Phoenix Suns 149
Leikurinn var tvíframlengdur en samanlagt skor, 301, er það hæsta í einum leik í NBA deildinni í 11 ár. Ray Allen skoraði 42 stig fyrir Seattle og Luke Ridnour 30.
Philadelphia 76ers 86, Minnesota Timberwolves 84
Allen Iverson skoraði 39 stig fyrir Philadelphia
Denver Nuggets 89, San Antonio Spurs 85
Memphis Grizzlies 93, Washington Wizards 82
LA Clippers 105, Golden State Warriors 92
Detroit Pistons 99, Houston Rockets 97
Miami Heat 119, Sacramento Kings 99
Dallas
Mavericks 95, Portland Trail Blazers 89.