Höttur er fallið úr úrvalsdeild

Lið Hattar frá Egilsstöðum er fallið úr úrvalsdeildinni í körfuknattleik aþar sem liðið tapaði 98:66 á útivelli gegn KR í kvöld. Höttur er með 6 stig og á aðeins einn leik eftir en Þór frá Akureyri er í þriðja neðsta sætinu með 10 stig eftir 93:81 sigur gegn ÍR.

Haukar töpuðu gegn Snæfell á heimavelli sínum í Hafnarfirði, 71:72. Haukar eru með 8 stig og eiga eftir að leika gegn Hetti á Egilsstöðum. Nái Haukar að sigra í þeim leik og Þór frá Akureyri tapar í lokumferðinni gegn Snæfell þá halda Haukar sæti sínu í deildinni en Þór fellur.

Skallagrímur er í fjórða sæti deildarinnar eftir 93:88 sigur gegn bikarmeistaraliði Grindavíkur. Keflavík átti ekki í vandræðum með Hamar/Selfoss á útivelli en þar skoraði Keflavíkurliðið 114 stig gegn 72. Njarðvík lagði Fjölni á heimavelli með 118 stigum gegn 94.

Njarðvík er í efsta sæti með 32 stig en Keflavík er einnig með 32 stig. Liðin eigast við í lokaumferðinni sem fram fer á fimmtudaginn en þar verða Keflvíkingar á heimavelli. KR er í þriðja sæti með 30 stig og Skallagrímur er með 28 stig í fjórða sæti. Grindavík og Snæfell eru í 5. og 6. sæti með 26 stig, ÍR er í því 7. með 20 stig og Fjölnir er með 16 stig í því áttunda. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Hamar/Selfoss er í 9. sæti með 14 stig, Þór er með 10 stig í 10. sæti, Haukar í því 11. með 8 stig og Höttur er á botninum með 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert