Ástralski körfuknattleiksmaðurinn Steve Leven staldraði stutt við hjá körfuknattleiksliði Snæfells úr Stykkishólmi. Leven kom til landsins s.l. sunnudag og horfði á Snæfell leggja Stjörnuna að velli í Iceland Express deildinni og átti hann að vera í leikmannahóp Snæfells gegn Njarðvík á morgun í undanúrslitum Lýsingarbikarkeppninnar. Leven fór hinsvegar af landi brott í gær eftir að hafa mætt á nokkrar æfingar í Stykkishólmi.
Leven þykir góður leikmaður en hann samkvæmt heimildum mbl.is féll hann ekki vel inn í leikskipulag Snæfellsliðsins.
Leven er 25 ára, 1,97 m á hæð, og hefur leikið sem framherji eða bakvörður. Hann er með skoskt ríkisfang, og þar með gjaldgengur sem Evrópubúi. Hann lék með bandarískum háskólaliðum og síðan með Wyoming Cowboys í NCAA-deildinni í Bandaríkjunum 2004 til 2006. Síðasta vetur spilaði hann með Perth Wildcats í Ástralíu fyrri hluta vetrar og seinni hlutann með Oberelchingen í þýsku 3. deildinni. Í haust fór hann síðan til Unicaja Málaga á Spáni.