„Það er allt of langt síðan þetta hefur verið gert því þetta er alveg nauðsynlegt. Það er gott fyrir krakkana að þeim sé beint inn á rétta braut en svo er það líka gott fyrir okkur að eignast fleiri stóra og góða körfuboltamenn til að ná betri árangri á alþjóðlegum vettvangi. Við þurfum stóra leikmenn,“ sagði Pétur Guðmundsson, fyrsti Evrópubúinn til að leika í NBA-deildinni í körfuknattleik og jafnframt eini Íslendingurinn sem þar hefur leikið.
Pétur býr í Bandaríkjunum en var í höfuðborginni um síðustu helgi þar sem hann leiðbeindi unglingum í sérstökum æfingabúðum fyrir hávaxna unga leikmenn. Sextíu krakkar nutu handleiðslu Péturs, sem sjálfur er 2,18 metrar, og annarra þjálfara og er stefna KKÍ að fjölga svona æfingabúðum svo að í framtíðinni verði til fleiri hávaxnir og góðir körfuboltamenn.