Lovísa fer í akademíu Geof Kotila

Lovísa Björt Henningsdóttir.
Lovísa Björt Henningsdóttir. mbl.is

Lovísa Björt Henningsdóttir unglingalandsliðskona í körfuknattleik og leikmaður Hauka hefur þegið boð Geof Kotila, fyrrum þjálfara karlaliðs Snæfells í körfuknattleik, um að vera í körfubolta-akademíu hans sem hann er með í Nyborg í Danmörku.

Lovísa mun verða í akademíunni á komandi vetri auk sem sem hún mun stunda nám við heimavistaskóla þar sem körfuboltinn verður hluti af náminu. Kotila vill  koma á sambandi milli skólans og íslenskra körfuboltakrakka og fer Lovísa utan í haust en skólinn er með eitt stúlknalið og tvö strákalið sem spilar í deildarkeppninni í Danmörku.

Lovísa hefur spilað 11 leiki unglingalandsleiki en hún er 16 ára gömul og er afar efnilegur leikmaður. Hún hefur leikið allan sinn feril með Haukum og hæfileikana hefur hún ekki langt að sækja en faðir hennar, Henning Freyr Henningsson, var snjall körfuboltamaður á árum áður og lék meðal annars með Haukum, Skallagrími og íslenska landsliðinu. 

,,Þetta er mikið tækifæri að fá að fara í þetta prógram og ég vona að ég þroskist mikið sem leikmaður og komi sterkari og betri til baka.  Það er mikill metnaður í þessu og það verða styrktar- og körfuboltaæfingar á hverjum degi,“ sagði Lovísa Björt við mbl.is.

Kotila, sem er Bandaríkjamaður, þjálfaði lið Snæfells á árunum 2006 til 2008. Liðið varð bikarmeistari og  deildarbikarmeistari undir stjórn en tapaði fyrir Keflavík í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Hann hefur starfað í Danmörku í mörg ár og gerði meðal annars Bakken Bears og Horsens að meisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert