Finnur Atli og Guðrún Gróa til Snæfells

Guðrún Gróa og Finnur Atli við undirskriftina.
Guðrún Gróa og Finnur Atli við undirskriftina. Ljósmynd/Snæfell

Bæði karla- og kvennaliði Snæfells hefur borist góður liðsstyrkur frá KR fyrir næsta körfuknattleikstímabil. Finnur Atli Magnússon og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir hafa nefnilega ákveðið að söðla um og leika undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar sem var einmitt áður þjálfari hjá KR.

Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Hótel Stykkishólmi. Við sama tilefni endurnýjaði Snæfell samninga við fjölmarga leikmenn í báðum liðum sínum.

Guðrún Gróa hefur verið einn besti varnarmaður Íslands en hún skoraði 8,2 stig og tók 7,5 fráköst að meðaltali á síðustu leiktíð með KR.

„Ég var algjörlega óákveðin í hvað ég ætlaði að gera, klára skóla í haust eða gera eitthvað allt annað kannski og þetta hljómaði virkilega spennandi. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt, viðkunnanlegur staður, alltaf gaman að koma hingað og svo þekki ég Inga Þór [Steinþórsson, þjálfara] og Hildi Sigurðardóttur mjög vel ásamt því að kannast við hinar stelpurnar. Þetta er bara allt annar pakki en ég verið í og er mjög heillandi,“ sagði Gróa við heimasíðu Snæfells.

Spennandi að flytja í einn fallegasta bæ landsins

Finnur Atli er hávaxinn landsliðsmiðherji en hann skoraði 11,4 stig að meðaltali á síðustu leiktíð og tók 5,4 fráköst.

„Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað nýtt, Ingi bauð mér góðan samning og ef ég ætlaði einhvern tíma að prófa að breyta til þá var tíminn núna. Ég þekki flesta strákana mjög vel og þá sérstaklega Nonna Mæju. Við höfum verið í ýmsum leiðindum inni á vellinum en erum mjög góðir félagar fyrir utan. Það er spennandi að flytja út á land, eins og sagt er, í einn fallegasta bæ á landinu. Bróðir minn [Guðmundur Magnússon] þekkir alla króka og kima hérna og formanninn nokkuð vel en svo vil ég auðvitað líka fara í lið sem er að berjast um titla og ég geri sömu kröfur á Snæfell eins og hjá KR að sækja alla titla sem í boði eru,“ sagði Finnur Atli við heimasíðu Snæfells.

Finnur Atli Magnússon er genginn í raðir Snæfells.
Finnur Atli Magnússon er genginn í raðir Snæfells. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka